Barist um skallabolta í leik Víkings Ó. og Keflavíkur. Ljósm. af.

Stöngin út og stöngin inn

Víkingur Ó. tapaði gegn Keflavík með einu marki gegn engu þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gær, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Leikið var í Ólafsvík.

Liðin mættu ákveðin inn á völlinn og nokkur harka var í leiknum í upphafi. Ólafsvíkingar voru meira með boltann í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér mikið af færum. Þeirra bestu marktilraun átti Harley Willard á lokamínútu fyrri hálfleiks en Sindri Kristinn Ólafsson í marki gestanna varði glæsilega frá honum. Staðan var því markalaus í hléinu.

Bæði liðin virtust ákveðin í að skora í upphafi síðari hálfleiks og áttu nokkrar marktilraunir. Það voru síðan gestirnir frá Keflavík sem brutu ísinn á 64. mínútu leiksins. Adam Árni Róbertsson skoraði með skoti fyrir utan teig sem fór í stöngina og inn.

Á 71. mínútu var Harley hársbreidd frá því að jafna metin fyrir Ólafsvíkinga en þrumuskot hans small í stönginni svo bergmálaði um alla áhorfendastúku. Var það besta færi Víkings í síðari hálfleik. Þeim tókst ekki að ógna marki gestanna að ráði það sem eftir lifði leiks og Keflvíkingar fóru því með sigur af hólmi, 0-1.

Víkingur Ó. hefur 13 stig í fjórða sæti deildarinnar, jafn mörg og Fjölnir og Keflavík í sætunum fyrir ofan. Næsti leikur Ólafsvíkinga er gegn Fram, sem situr í fimmta sæti, laugardaginn 22. júní næstkomandi. Sá leikur fer fram í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira