Steinar Þorsteinsson minnkaði muninn fyrir ÍA seint í leiknum en það dugði ekki til og Skagamenn máttu sætta sig við tap. Ljósm. gbh.

Óvænt tap í Eyjum

ÍA tapaði óvænt gegn botnliði ÍBV í Pepsi Max deild karla í gær, 3-2. Leikið var á Hásteinsvelli í Vestmanneyjum.

Skagamenn sóttu stíft í upphafi leiks og komust yfir strax á 6. mínútu. Gilson Correia var að dóla með boltann sem aftasti maður. Tryggvi Hrafn Haraldsson nýtti sér það, hirti boltann af honum og skoraði. Eyjamenn jöfnuðu metin á 27. mínútu þegar Jonathan Glenn skoraði eftir laglegan samleik heimamanna upp völlinn. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk ÍBV aukaspyrnu. Boltinn var sendur inn á teig þar sem hann var skallaður fyrir fætur Breka Ómarssonar sem skoraði auðveldlega af stuttu færi og ÍBV komið. En þar með var viðburðaríkum fyrri hálfleik ekki lokið. Í uppbótartíma var Diogo Coelho vikið af velli fyrir að gefa Halli Flosasyni olnbogaskot. Eyjamenn leiddu 2-1 í hléinu en voru orðnir manni færri.

Það virtist hins vegar ekki há ÍBV sérstaklega að hafa misst mann út af, því þeir skoruðu þriðja mark sitt á 54. mínútu. Felix Örn Friðriksson sendi frábæra sendingu inn á teiginn beint á kollinn á Víði Þorvarðarsyni sem stangaði boltann í netið.

Sókn Skagamanna þyngdist eftir því sem leið á leikinn en lengi vel náðu þeir ekki að Skapa sér nein alvöru marktækifæri. Þeir minnkuðu muninn í 3-2 á 81. mínútu. Steinar Þorsteinsson fékk boltinn í teignum, náði að búa sér til smá pláss og skrúfaði hann í fjærhornið. Laglegt mark hjá Steinari og áfram héldu Skagamenn að sækja. Tryggvi hefði getað jafnað metin í uppbótartíma. Hann fékk boltann í vítateignum, átti fast skot að marki en Rafael Veloso varði frá honum á ögurstundu. Fleiri urðu færin ekki og Eyjamenn fóru því með sigur af hólmi, 3-2 en Skagamenn máttu sætta sig við fyrsta tap sumarsins.

Eftir sjö umferðir situr ÍA í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, jafn mörg og topplið Breiðabliks en tveimur stigum á undan KR. Næsti leikur Skagamanna er einmitt stórleikur gegn KR. Sá fer fram á Akranesvelli laugardaginn 15. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir