Körfuknattleiksþjálfarinn Manuel Rodriguez. Ljósm. úr safni/ jho.

Manuel snýr aftur í Borgarnes

Spánverjinn Manuel Rodriguez hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Skallagríms í körfuknattleik karla. Mun hann stýra liði Borgnesinga í 1. deildinni næsta vetur.

Manuel er 39 ára gamall, reyndur þjálfari sem á að baki fjölbreyttan feril. Hann hefur stýrt félags- og skólaliðum á Spáni og í Svíþjóð, auk þess að koma að þjálfun yngri landsliða í heimalandinu. Hann tekur við starfinu af Finni Jónssyni, sem ákvað að halda ekki áfram þjálfun Skallagríms að loknu síðasta keppnistímabili, eftir fjögur og hálft ár við stjórnvölinn.

Manuel er Borgnesingum að góðu kunnur. Hann hann þjálfaði meistaraflokk kvenna með góðum árangri frá 2015 til 2017. Fyrst kom hann Skallagrímskonum upp í Domino‘s deildina og árið eftir kom hann liðinu í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn og í úrslitaleik bikarkeppninnar. „Ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að þjálfa karlalið Skallagríms næsta tímabil. Það er mikil hamingja yfir því að snúa aftur í Borgarnes en ég á mjög góðar minningar þaðan þau tvö tímabil sem ég þjálfaði kvennaliðið,“ er haft eftir Manuel í tilkynningu Kkd. Skallagríms. „Það verður mikil barátta næsta tímabil og á brattann að sækja. Við munum hins vegar undirbúa okkur vel og af krafti og trúmennsku og ég mun leitast við að gera liðið erfitt viðureignar fyrir alla andstæðinga. Ég er reiðubúinn að vinna sleitulaust að þv´iað koma því á þann stall sem það á skilið. Þetta getur orðið löng og ströng vegferð, en við munum undirbúa okkur vel því ég tel að árangur náist með samstilltu átaki frá degi til dags á tímabilinu framundan,“ segir Manuel.

Líkar þetta

Fleiri fréttir