Bjarki Steinn Bjarkason á fleygiferð gegn FH. Hann skoraði bæði mörk leiksins. Ljósm. gbh.

Skagahraðlestin á fullri ferð

Skagamenn lögðu FH á Akranesvelli í gær með tveimur mörkum gegn engu. Bjarki Steinn Bjarkason skoraði bæði mörk leiksins. Var þetta fyrsti sigur ÍA á FH í efstu deild karla í 14 ár, eða síðan 2005.

Skagamenn byrjuðu leikinn í gær af miklum krafti og komust yfir strax á 3. mínútu eftir leiftursnögga skyndisókn. Árni Snær Ólafsson markvörður sendi boltann inn fyrir vörn FH-inga á Tryggva Hrafn Haraldsson. Hann stakk varnarmenn FH af og lagði boltann síðan fyrir Bjarka Stein Bjarkason sem skoraði af stuttu færi.

Skagamenn voru sterkari eftir markið og virkuðu líklegri til að bæta við en FH-ingar að jafna. Tryggvi var nálægt því að skora um miðjan hálfleikinn en gott skot hans smaug rétt framhjá markinu. Bjarki slapp síðan einn í gegnum vörn FH-ingar undir lok fyrri hálfleiks en Vignir Jóhannesson varði vel í marki gestanna. Besta færi FH kom eftir hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Björn Daníel Sverrisson átti þá góðan skalla eftir hornspyrnu en Árni Snær varði vel frá honum af mjög stuttu færi.

Bæði lið sköpuðu sér ágætis marktækifæri í síðari hálfleik en það voru Skagamenn sem bættu við á 68. mínútu. Steinar Þorsteinsson fór auðveldlega framhjá varnarmanni, sendi boltann fyrir á Bjarka Stein sem skaut fallegu skoti í þverslá og inn. Skagamenn komnir í 2-0.

Aðeins þremur mínútum síðar fékk Pétur Viðarsson, leikmaður FH, beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk og staðan ekki björguleg fyrir gestina. Leikurinn róaðist eftir þetta, hvorugt lið skapaði sér nein alvöru marktækifæri og leiknum lauk því með tveggja marka sigri ÍA.

Skagamenn eru á toppi deildarinnar með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðir mótsins, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan. ÍA og Breiðablik mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar, sunnudaginn 19. maí næstkomandi. Sá leikur fer fram í Kópavogi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir