Byrjunarlið Kára fyrir leikinn í Vogum á föstudaginn. Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Kári á toppnum

Káramenn gerðu sér ferð suður með sjó á föstudaginn og mættu Þrótti frá Vogum í annarri umferð 2. deildar karla í knattspyrnu.

Fyrri hálfleikur var markalaus og það var ekki fyrr en á 59. mínútu leiksins að ísinn var brotinn. Heimamenn í Þrótti V. fengu þá vítaspyrnu. Pape Mamadou Faye fór á punktinn og honum brást ekki bogalistin. Heimamenn komnir yfir og þannig var staðan næsta korterið, eða allt þar til Andri Júlíusson jafnaði metin fyrir Kára á 74. mínútu. Heimamenn misstu mann af velli í uppbótartíma þegar Hrólfur Sveinsson fékk að líta rauða spjaldið. Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð og lokatölur urðu því 1-1.

Káramenn tróna á toppi deildarinnar eftir fyrstu tvær umferðirnar með fjögur stig, jafn mörg og ÍR, Víðir og Selfoss í sætunum fyrir neðan. Næst leikur Kári á laugardaginn, 18. maí, þegar liðið heimsækir Vestra vestra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir