Ólöf Sigríður Kristinsdóttir nýbúin að skora jöfnunarmark ÍA. Ljósm. Bjarki Halldórsson.

Jafntefli í fyrsta leik Skagakvenna

Kvennalið ÍA tók á móti FH síðastliðinn föstudag í sínum fyrsta heimaleik og jafnframt fyrsta leik á tímabilinu. Gestirnir úr FH eru nýliðar í Inkasso deildinni eftir að hafa fallið niður úr efstu deild fyrir ári síðan en á sama tíma voru Skagastúlkur hársbreidd frá því að koma sér upp og hefja nú nýtt áhlaup til að verða í röð þeirra bestu. Liðin mættust á Akranesvelli.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og augljóst að bæði lið ætluðu sér sigur. Fyrsta mark leit ekki dagsins ljós fyrr en í síðari hálfleik þegar Selma Dögg Björgvinsdóttir úr liði gestanna skoraði og kom FH yfir á 55. mínútu. Heimastúlkur létu þetta ekki á sig fá og eftir góðan undirbúning frá Bryndísi Rún Þórólfsdóttur náði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir að jafna metin á 63. mínútu. Ekki komu fleiri mörk frá liðunum og skildu þau því jöfn 1-1 með sitthvort stigið í vasanum.

Næsti leikur hjá ÍA stúlkum verður gegn Fjölni á útivelli í Grafarvogi næsta sunnudag og hefst sá leikur klukkan 14:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir