Bæði mörk Skagamanna komu eftir hornspyrnu Tryggva Hrafns Haraldssonar. Ljósm. úr safni.

Skagamenn sigruðu Val á Hlíðarenda

ÍA og Valur áttust við í þriðju umferð Pepsí Max deildarinnar í fótbolta í gærkvöldi. Spilað var á gervigrasinu á Hlíðarenda og voru aðstæður býsna góðar; sól, heiðskýrt, lítilsháttar gola en fremur kalt. Fyrirfram hafði verið búist við að leikurinn yrði brekka fyrir Skagamenn, en sú varð ekki raunin. 2-1 sigur var staðreynd og um leið fyrsta tap Vals á heimavelli í tæp fjögur ár, síðan í september 2016. Óhætt er að segja að Skagamenn hafi átt fína byrjun í mótinu og lofar ungt og sprækt lið undir forystu Jóhannesar Karls Guðjónssonar þjálfara góðu fyrir sumarið.

Bæði mörk Skagamanna voru keimlík; komu eftir hornspyrnu frá Tryggva Hrafni Haraldssyni. Óttar B. Guðmundsson átti fyrra markið á 21. mínútu, skallaði í netið óáreittur, en síðara markið var skrifað á Arnar Már Guðjónsson en gat einnig hafa verið sjálfsmark. Það kom skömmu fyrir leikhlé. Í síðari hálflveik var það Valsarinn Gary Martin, fyrrum leikmaður ÍA, sem minnkaði muninn fyrir gestgjafana á 57. mínútu úr vítaspyrnu. Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir fjölmörg tækifæri.

Eftir leikinn er ÍA í 2. sæti deildarinnar, með sjö stig eftir þrjá leiki jafn mörg og Breiðablik í fyrsta sæti og FH í þriðja sæti. Einungis markatalan skilur liðin að.

Líkar þetta

Fleiri fréttir