Viktor Ingi Jakobsson skoraði eina mark Skallagríms í leiknum. Ljósm. sas.

Stórt tap hjá Skallagrími

Skallagrímsmenn þurftu að sætta sig við tap gegn Álftnesingum í annarri umferð 3. deildar karla í fótbolta á í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á Skallagrímsvelli og var vel mætt í brekkuna.

Borgnesingar byrjuðu leikinn betur og voru áræðnir við mark Álftnesinga strax frá upphafi. Dæmd var rangstaða á heimamenn snemma í hálfleiknum þegar þeir héldu að þeir hefðu komist yfir. Þetta virtist trufla einbeitinguna hjá þeim gulklæddu því í næstu sókn skoruðu gestirnir að sunnan og komust yfir þegar níu mínútur voru liðnar af leiknum. Rétt áður en fyrri hálfleikur kláraðist nældi Konráð Ragnarsson, varamarkmaður Skallagrímsmanna, sér í rautt spjald eftir árekstur í teig við sóknarmann Álftnesinga, aðeins tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Hálfleiks tölur því 0-1.

Í síðari hálfleik voru heimamenn óheppnir og skoruðu sjálfsmark strax á 49. mínútu. Næstu mínútur voru mikið fram og til baka og hart barist. Það var svo á 81. mínútu að brotið var á Skallagrími í teig gestanna og víti dæmt. Viktor Ingi Jakobsson fór á punktinn og lagði boltann örugglega í netið og minnkaði þar með muninn í 1-2. Þetta virtist hafa lítil sem engin áhrif á gestina sem skoruðu aftur mínútu seinna. Eftir það virtist allur vilji heimamanna til að spila vörn farinn þar sem gestirnir bættu við tveimur mörkum til viðbótar áður en leikurinn rann út í sandinn. Lokatölur 1-5 Álftnesingum í vil.

Líkar þetta

Fleiri fréttir