Skóladagur í Borgarbyggð á morgun

Á morgun, laugardaginn 30. mars á milli klukkan 13 og 15, munu skólar á öllum skólastigum í Borgarbyggð kynna starfsemi sína á Skóladegi sem haldinn verður í Hjálmakletti. Vítt og breitt um bygginguna verður margt forvitnilegt að sjá og hægt að kynnast gróskumiklu skólastarfi allra skólastiga í sveitarfélaginu.

Þetta er í fyrsta skipti sem skólarnir kynna sig allir með þessum hætti. Til skemmtunar verður boðið upp á bíósýningar, Lubbastundir og söngstundir fyrir gesti og gangandi. Að auki verður undirskrift samstarfssamnings. Á sviði verður sýnt brot úr leikritinu Eftir lífið.

Nemendur stíga á stokk og flutt verða ljóð, boðið upp á söng og tónlistarflutning og verðlaunaafhending verður í hugmyndasamkeppni.

Á Skóladegi munu leikskólarnir Andabær, Hnoðraból, Hraunborg, Klettaborg og Ugluklettur kynna sína starfsemi. Grunnskólarnir verða Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar og Laugargerðisskóli.

Auk þess Menntaskóli Borgarfjarðar, Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi. Þá munu Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands kynna sína starfsemi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir