Myrkvaður Grundarfjarðarbær á Jarðarstund á Snæfellsnesi í fyrra. Ljósm. úr safni/ tfk.

Jarðarstund á Snæfellsnesi á laugardagskvöld

Næstkomandi laugardag, 30. mars, verður umhverfisviðburðurinn Earth Hour, eða Jarðarstund, haldinn í tólfta skipti. Um er að ræða árlegan alþjóðlegan viðburð þar sem milljónir jarðarbúa sameinast um að vekja athygli á loftslagsmálum. Af því tilefni munu sveitarfélög á Snæfellsnesi, í samstarfi við RARIK, taka þátt með því að slökkva á götuljósum milli kl. 20:30 og 21:30. Er þetta í þriðja sinn sem sveitarfélög á Snæfellsnesi taka þátt í viðburðinum með þessum hætti. Einnig munu nokkrir veitinga- og samkomustaðir á Nesinu bjóða upp á myrkvaða stemningu í tilefni Jarðarstundarinnar.

„Jarðarstund gefur okkur tækifæri til að njóta samverustundar með fólkinu í kringum okkur og huga að loftslagsbreytingum af mannavöldum. Geymur venjur nútímans – leggjum snjallsímann frá okkur, slökkvum á sjónvarpinu og á ljósum, jafnvel þvottavélinni, og leggjum áherslu á það sem færir okkur hamingju og heilbrigt líf,“ segir Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness, í Skessuhorni vikunnar. Hún segir enn fremur að heilbrigðir og hamingjusamir íbúar séu mikilvæg auðlind fyrir sjálfbært samfélag. „Ein jarðarstund er stuttur tími, en þann tíma skulum við gefa okkur til að vera jarðbundin og njóta þess sem við höfum.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir