Shequila Joseph fór mikinn í leiknum gegn KR en það dugði Skallagrímskonum þó ekki til sigurs. Ljósm. Skallagrímur.

Gestirnir sterkari í síðari hálfleik

Skallagrímskonur töpuðu gegn KR, 66-85, þegar liðin mættust í næstsíðustu umferð Domino‘s deildar kvenna. Leikið var í Borgarnesi á laugardaginn.

Skallagrímskonur byrjuðu leikinn betur og höfðu yfirhöndina lengst framan af fyrri hálfleik. Þær náðu átta stiga forskoti í fyrsta leikhluta sem KR minnkaði niður í tvö. Skallagrímskonur svöruðu því og leiddu með fimm stigum eftir upphafsfjórðunginn, 22-17. Þær héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og komust tólf stigum yfir áður en leikhlutinn var hálfnaður. Þá tóku gestirnir við sér og minnkuðu muninn jafnt og þétt það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, þar til aðeins munaði tveimur stigum á liðunum. Skallagrímur leiddi með 41 stigi gegn 39 þegar flautað var til hálfleiks.

KR-ingar náðu forystunni snemma í síðari hálfleik en Skallagrímskonur fylgdu þeim eins og skugginn framan af þriðja leikhluta. Þegar langt var liðið af fjórðungnum náðu gestirnir smá rispu og leiddu með sex stigum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 55-61. Þar náðu Skallagrímskonur sér ekki á strik og skoruðu aðeins ellefu stig. Á meðan sigu gestirnir hægt en örugglega lengra og lengra fram úr. Þegar lokaflautan gall höfðu KR-konur 19 stiga forkost. Þær sigruðu með 85 stigum gegn 66 stigum Skallagrímskvenna.

Shequila Joseph setti upp tröllatvennu í liði Skallagríms, skoraði 24 stig og reif niður 20 fráköst, auk þess sem hún gaf átta stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 15 stig og tók átta fráköst, Ines Kerin var með 14 stig og níu stoðsendingar og Maja Michalska skoraði tíu stig.

Kiana Johnson átti stórleik fyrir KR og setti upp þrennu. Hún skoraði 38 stig, tók ellefu fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Orla O‘Reilly skoraði 19 stig og tók tíu fráköst og Vlima Kesanen var með tíu stig.

Skallagrímskonur hafa tólf stig í sjöunda sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina, með fjórum stigum meira en Breiðablik sem er fallið en fjórum stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Það þýðir að staða liðsins í deildinni mun ekki breytast í lokaumferðinni. Lokaleikur Skallagríms í Domino‘s deildinni þennan veturinn er útileikur gegn Haukum á morgun, þriðjudaginn 26. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir