Snæfellingar fundu ekki taktinn gegn Fjölni í gærkvöldi. Ljósm. úr safni/ sá.

Tap gegn Fjölni

Snæfellingar máttu játa sig sigraða gegn Fjölni á útivelli, 89-65, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Heimamenn stjórnuðu leiknum frá því snemma í fyrsta leikhluta og unnu að lokum öruggan 24 stiga sigur.

Snæfellingar skoruðu fyrstu stigin en voru ekki lengi í forystu. Heimamenn héldu Hólmurum stigalausum næstu sex mínúturnar og komust á meðan í 13-3. Snæfellingar fundu sig engan veginn í upphafsfjórðungnum og skoruðu aðeins sjö stig allan leikhlutann gegn 20 stigum Fjölnis. Snæfellingar léku betur í öðrum leikhluta en það gerðu heimamenn einnig. Fjölnir leiddi með 17 stigum í hálfleik, 47-30.

Fjölnisliðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik en Snæfellingar áttu erfitt uppdráttar. Hólmarar skoruðu ellefu stig gegn 21 í þriðja leikhluta og staðan orðin 68-41 fyrir lokafjórðunginn. Snæfellingar löguðu stöðuna lítið eitt í lokafjórðungnum en máttu að lokum sætta sig við 24 stiga tap, 89-65.

Ísak Örn Baldursson skoraði ellefu stig og tók sex fráköst í liði Snæfells. Darrel Flake var með ellefu stig og fimm fráköst og Sæþór Sumarliðason skoraði tíu stig.

Róbert Sigurðsson var atkvæðamestur í liði Fjölnis með 20 stig og fimm fráköst, Rafn Kristján Kristjánsson var með 15 stig og sjö fráköst, Egill Arnar Októsson skoraði tólf stig og tók fimm fráköst og Andrés Kristleifsson skoraði ellefu stig.

Snæfell hefur tvö stig á botni deildarinnar eftir 17 leiki, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan en Hólmarar eiga leik til góða. Næst leika þeir gegn Hamri föstudaginn 22. febrúar næstkomandi. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira