Frá generalprufu í gær. Ljósm. jho.

Leitin frumsýnd í Bíóhöllinni

Nemendur unglingadeildar Brekkubæjarskóla á Akranesi hafa undanfarnar vikur staðið í ströngu við æfingar á leiksýningunni Leitinni. Nú er stóra stundin í þann mund að renna upp, því Leitin verður frumsýnd í Bíóhöllinni á Akranesi í kvöld, föstudaginn 15. febrúar, kl. 20:00.

Leitin er eftir Samúel Þorsteinsson og Heiðrúnu Hámundardóttur. Leikritið er fullt af tónlist, dansi og gleði og hentar allri fjölskyldunni, ekki síst börnum. „Leikritið er um unga krakka sem strjúka og lenda í ýmsum ævintýrum,“ sagði Heiðrún í samtali við Skessuhorn í byrjun febrúar, en vildi ekki gefa meira upp um söguþráðinn. „Ég vil ekki segja of mikið en hvet fólk eindregið til þess að koma á sýningu.“

Um 70 nemendur taka á einhvern hátt þátt í sýningunni að þessu sinni. „Við leggjum alltaf mikla áherslu á að allir sem vilja fái tækifæri til þess að taka þátt. Við leggjum okkur fram við að finna hlutverk fyrir alla. Enda er nóg sem þarf að gera í kringum svona sýningu. Það er hægt að leika, syngja, dansa, spila í hljómsveitinni, farða, sjá um tæknimál eða sviðsmynd og fleira. Við reynum að virkja krakkana sem mest og veita þeim leiðsögn.“

Uppselt mun vera á frumsýninguna en áhugasömum er bent á til stendur að sýna einnig á morgun, laugardaginn 16. febrúar, sunnudaginn 17. febrúar og þriðjudaginn 19. febrúar. Miðasala er á skrifstofu Brekkubæjarskóla, í síma 433-1300 og í Bíóhöllinni tveimur klukkustundum fyrir sýningar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir