Fasteignaverð hækkaði mest á Akranesi

Fasteignaverð á Akranesi hækkaði um 19,2 prósent milli áranna 2017 og 2018. Hvergi annars staðar á landinu varð jafn mikil hækkun fasteignaverðs, skv. Hagsjá Landsbankans sem birt var í dag . Þar kemur einnig fram að fasteignaverð hækkaði meira í fjórum stærstu bæjarfélögunum utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu frá 2017 til 2018. Bæjarfélögin fjögur eru Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Árborg og Reykjanesbær.

Í þessum fjórum bæjarfélögum hækkaði fasteignaverð umtalsvert milli áranna 2017 og 2018 og alls staðar meira en 10%, samanborið við 3,7% hækkun á höfuðborgarsvæðinu. Sem fyrr segir hækkaði verðið mest á Akranesi, um 19,2%, en næstmest í Árborg eða um 15,1%. Verðið hækkaði um 13,9% á Akureyri og 10,6% í Reykjanesbæ.

Í Hagsjánni eru notaðar tölur úr verðsjá Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs. Miðað er við vegið meðaltal viðskipta með fjölbýli og sérbýli. „Sé litið á þróunina til lengri tíma má sjá að talsvert hægði á verðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 á meðan minna hægði á hækkunum í bæjunum fjórum. Sums staðar hafa hækkanirnar verið verulegar á ýmsum tímum, t.d. í Reykjanesbæ á árinu 2017, Í Árborg 2016 og 2017 og á Akranesi 2017 og 2018,“ segir í Hagsjánni.

En þrátt fyrir miklar hækkanir fasteignaverðs í bæjunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins er fermetraverð þar enn mun lægra en í borginni. Á fjórða ársfjórðungi 2018 var meðalfermetraverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu 462 þús. kr. en 411 þúsund í sérbýli. Á sama tímavar meðalfermetraverð á Akranesi 317 þús. kr. í fjölbýli á Akranesi en 275 þús. í sérbýli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir