Gunnhildur Gunnarsdóttir og félagar hennar í Snæfelli máttu sætta sig við tap eftir spennandi leik gegn Haukum. Ljósm. úr safni/ sá.

Óvænt tap Snæfells

Snæfell tapaði óvænt gegn Haukum, 73-67, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði og var leikurinn jafn og spennandi frá fyrstu mínútu.

Snæfell hafði heldur yfirhöndina framan af upphafsfjórðungnum, leiddu með fjórum stigum á kafla en Haukar jöfnuðu í 17-17 áður en leikhlutinn var úti. Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum fjórðungi. Þau skiptust á að leiða leikinn og þegar hálfleiksflautan gall voru Snæfellskonur stigi yfir, 33-34.

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Leikurinn var hnífjafn og spennandi. Til marks um það munaði aldrei meira en þremur stigum á liðunum í þriðja leikhluta. Haukar leiddu með einu stigi fyrir lokafjórðunginn, 52-51. Snæfellskonur komust yfir í upphafi fjórða leikhluta en Haukar tóku forystuna aftur. Snæfell minnkaði muninn í eitt stig þegar fjórar mínútur voru eftir og útlit fyrir æsispennandi lokamínútur. En þá náðu Haukakonur góðum endaspretti. Þær komust sex stigum yfir þegar tvær mínútur lifðu leiks og Snæfelli tókst ekki að koma til baka. Lokatölur urðu 73-67, Haukum í vil.

Kristen McCarthy átti afar góðan leik fyrir Snæfell, skoraði 25 stig, tók 13 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum sjö sinnum. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 21 stig og Katarinja Matijevic skoraði tólf stig og tók tíu fráköst.

Lele Hardy var atkvæðamest í liði Hauka með 19 stig, níu fráköst, sjö stoðsendingar og fimm stolna bolta. Klaziena Guijt skoraði 17 stig, Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 13 stig, tók fimm fráköst og gaf níu stoðsendingar og Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði ellefu stig og tók átta fráköst.

Snæfellskonur hafa 24 stig í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en Stjarnan en tveimur stigum á eftir Val í sætinu fyrir ofan. Næsti deildarleikur Snæfells er einmitt gegn Val í Stykkishólmi, sunnudaginn 24. febrúar næstkomandi. Í millitíðinni mætast þessi sömu lið hins vegar í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn, 13. febrúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira