Bjarni Guðmann Jónsson og félagar hans í Skallagrími máttu sætta sig við tap gegn Keflavík. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Töpuðu suður með sjó

Skallagrímur mátti játa sigraðan gegn Keflvíkingum, 104-82, þegar liðin mættust í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó.

Heimamenn náðu snemma nokkurra stiga forystu og höfðu yfirhöndina í upphafi leiks. Þeir náðu góðum spretti undir lok fyrsta leikhluta og leiddu með 13 stigum að honum loknum, 32-19. Heimamenn juku muninn lítið eitt framan af öðrum fjórðungi. Borgnesingar svöruðu fyrir sig þegar nær dró hálfleiknum og minnkuðu muninn í ellefu stig áður en hálfleiksflautan gall, 59-48.

Skallagrímsmenn voru heldur sterkari í framan af þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í sjö stig. Keflvíkingar svöruðu fyrir sig og leiddu með ellefu stigum fyrir lokafjórðunginn, 78-67. Heimamenn áttu síðan fjórða leikhlutann með húð og hári. Þeir skoruðu 18 stig gegn átta fyrstu fimm mínútur leikhlutans og innsigluðu sigur sinn í leiknum. Lokatölur urðu 104-82, Keflvíkingum í vil.

Matej Buovac var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 20 stig og tíu fráköst. Bjarni Guðmann Jónsson skoraði 17 stig, Domagoj Samac var með 16 stig og Aundre Jackson skoraði 13 stig.

Michael Craion var besti maður Keflvíkinga í leiknum, með 23 stig, 14 fráköst og sex stoðsendingar. Mindaugas Kacinas skoraði 22 stig, tók tólf fráköst og gaf sjö stoðsendingar, Gunnar Ólafsson skoraði 22 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 16 stig og gaf átta stoðsendingar.

Skallagrímur hefur átta stig í ellefta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Valsmönnum sem eiga leik til góða á Borgnesinga. Næst leikur Skallagrímur gegn Þór Þ. sunnudaginn 3. mars næstkomandi. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir