Kristen McCarthy fór mikinn á báðum endum vallarins þegar Snæfell vann stórsigur á Skallagrími. Ljósm. sá.

Stórsigur Snæfells í Vesturlandsslagnum

Snæfell vann stórsigur á Skallagrími, 79-42, þegar liðin mættust í Vesturlandsslag í Domino‘s deild kvenna. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Snæfellskonur gáfu tóninn snemma leiks, voru sterkari í upphafsfjórðungnum og leiddu með átta stigum að honum loknum, 20-12. Skallagrímsliðið minnkaði muninn lítið eitt í upphafi annars leikhluta áður en Snæfellskonur tóku smá rispu og komst tíu stigum yfir. Þær áttu síðan lokaorðið í fyrri hálfleik og fóru með 13 stiga forskot inn í hálfleikinn.

Síðari hálfleikur fór hægt af stað þar sem hvorugu liði tókst að skora fyrstu mínúturnar. Snæfellskonur höfðu áfram yfirhöndina og með smá rispu undir lok þriðja leikhluta tryggðu þér sér 17 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Það var síðan í fjórða leikhluta sem þær stungu af. Botninn datt algerlega úr leik Skallagríms sem skoraði aðeins átta stig allan leikhlutann, þar af fimm síðustu mínútuna. Á meðan bættu Snæfellskonur ört við forskot sitt og unnu að lokum stórsigur, 79-42.

Kristen McCarthy átti stórleik fyrir Snæfell á báðum endum vallarins. Hún skoraði 26 stig, reif niður 20 fráköst, gaf sex stoðsendingar, stal sjö boltum og varði þrjú skot. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði tíu stig og varði fimm skot. Berglind Gunnarsdóttir skoraði níu stig, Angelika Kowalska og Helga Hjördís Björgvinsdóttir voru með átta stig hvor og Katarina Matijevic skoraði sjö stig og tók ellefu fráköst.

Shequila Joseph var stigahæst í liði Skallagríms með tólf stig og tók hún tólf fráköst að auki. Maja Michalska og Brianna Banks skoruðu níu stig hvor.

Snæfellskonur hafa 24 stig í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Val í sætinu fyrir ofan en með tveggja stiga forskot á Stjörnuna í sætinu fyrir neðan. Skallagrímskonur eru í sjötta sæti með tólf stig, tveimur stigum meira en Haukar í sætinu fyrir neðan.

Bæði lið leika næst á laugardaginn, 9. febrúar næstkomandi. Snæfell heimsækir Hauka en Skallagrímskonur mæta KR á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira