Frá undirritun samningsins sl. föstudag. F.v. Sigrún Ólafsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar, Kári Viðarsson, leikari og eigandi Frystiklefans í Rifi og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. Ljósm. Snæfellsbær.

Skrifað undir samstarfssamning Snæfellsbæjar og Frystiklefans

Síðdegis á föstudag var skrifað undir fjögurra ára samstarfssmaning Snæfellsbæjar og Frystiklefans í Rifi. Það voru Kári Viðarsson í Frystiklefanum, Sigrún Ólafsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar og Kristinn Jónasson bæjarstjóri sem undirrituðu samninginn.

Í honum felst að bæjarfélagið styrkir starfsemi Frystiklefans um fasta upphæð á herju ári sem nýta skal til ýmissa viðburða og auðga þannig menningarlíf og bæta lífsgæði íbúa Snæfellsbæjar, að því er fram kemur á vef bæjarfélagsins. „Báðir aðilar samningsins vilja með þessu styrkja stoðir í því mikilvæga menningarstarfi sem unnið er í Frystiklefanum og er hann um leið vottur um það traust sem bæjarstjórn Snæfellsbæjar ber til Kára og starfsmanna Frystiklefans,“ segir um samninginn á vef bæjarins.

Samkvæmt samkomulaginu mun Frystiklefinn halda hátíðir á sviði kvikmyndar- tónlistar og götulistar sem íbúar Snæfellsbæjar geta sótt að kostnaðarlausu. Um er að ræða kvikmyndahátíðina Northern Wave Film Festival, tónlistarhátíðina Tene-Rif og götulistahátíðina Snæfellsbær Street Art Festival. Nemendur 8.-10. bekkjar í Grunnskóla Snæfellsbæjar fá ársmiða á alla viðburði Frystiklefans, sem er liður í að hvetja unglinga til þátttöku í menningarlífi bæjarins. Fjölbreytt námskeið verða í boði í Frystiklefanum fyrir börn á grunnskólaaldri með faglærðum leikurum og dönsurum, með það að markmiðið að auka leikgleði, samhæfingu, sköpunargleði og sjálfstraust. Námskeiðin standa börnunum til boða þeim að kostnaðarlausu. Þá mun Frystiklefinn einnig sinna verkefnum með yngstu og elstu íbúum Snæfellsbæjar, m.a. í gegnum viðburði og námskeið á Leikskóla Snæfellsbæjar og Dvalarheimilinu Jaðri. Þá heimsækir Frystiklefinn Smiðjuna, dagþjónustu og vinnustofu fólks með skerta starfsgetu, með það að leiðarljósi að styrkja vináttubönd og auka þátttöku í menningarlífi bæjarins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir