Litlu munaði að Bjarni Guðmann Jónsson og félagar hans í Skallagrími næðu að stela sigrinum í spennandi leik gegn Grindavík. Ljósm. Skallagrímur.

Nálægt því að stela sigrinum

Skallagrímur mátti játa sig sigraðan, 90-83, eftir jafnan og spennandi leik gegn Grindavík í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gær. Leikið var suður með sjó.

Borgnesingar voru betri í upphafi leiks, nýttu sér slakan varnarleik heimamanna og leiddu 15-7 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Þá náðu Grindvíkingar smá rispu, komust yfir og höfðu fjögurra stiga forystu eftir upphafsfjórðunginn, 30-26. Heimamenn höfðu yfirhöndina í öðrum leikhluta en Skallagrímsmenn voru aldrei langt undan. Borgnesingar minnkuðu muninn í tvö stig seint í leikhlutanum en Grindvíkingar áttu lokaorðið og höfðu átta stiga forskot í hléinu, 49-41.

Þriðji leikhluti var svipaður og sá fyrri. Heimamenn leiddu en Borgnesingar eltu. Skallagrímur minnkaði muninn í fjögur stig en aftur áttu Grindvíkingar lokaorðið leikhlutans og fóru með átta stiga forystu inn í lokafjórðunginn. Skallagrímsmenn voru ákveðnir og minnkuðu forskot heimamanna jafnt og þétt. Þegar þrjár mínútur lifðu leiks voru Borgnesingar búnir að minnka muninn í eitt stig og heldur betur farin að færast spenna í leikinn. Þegar mínúta lifði leiks komust Skallagrímsmenn stigi yfir, 82-83 og voru nálægt því að stela sigrinum. En þeir brutu á Grindvíkingum í þriggja stiga skoti í næstu sókn. Öll vítin rötuðu gegnum hringinn. Skallagrímsmenn hittu ekki úr sniðskoti og Grindvíkingar þökkuðu fyrir sig með þriggja stiga körfu þegar hálf mínúta lifði leiks og kláruðu síðan leikinn af vítalínunni. Lokatölur urðu 90-83, Grindvíkingum í vil.

Aundre Jackson átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 35 stig og tók tíu fráköst. Bjarni Guðmann Jónsson var með 13 stig og sex fráköst, Matej Buovac skoraði tólf stig og Björgvin Hafþór Ríkharðsson var með ellefu stig og tólf fráköst.

Sigtryggur Arnar Björnsson, sem er Borgnesingum að góðu kunnur, skoraði 26 stig og gaf fimm stoðsendingar í liði Grindvíkinga. Ólafur Ólafsson var með 16 stig og níu fráköst, Lewis Clinch jr. var með 14 stig og fimm fráköst, Jordy Kuiper 13 stig og tíu fráköst og Kristófer Breki Gylfason var með tíu stig.

Skallagrímur er í ellefta sæti deildarinnar með fjögur stig, tveimur stigum meira en botnlið Breiðabliks en fjórum stigum á eftir liðunum fyrir ofan. Næst leikur Skallagrímur fimmtudaginn 17. janúar, þegar liðið mætir Stjörnunni í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira