Hinn ungi Gabríel Sindri Möller átti góðan leik fyrir Skallagrím. Ljósm. Skallagrímur.

Meistararnir of stór biti fyrir Skallagrím

Skallagrímur tók á móti Íslandsmeisturum KR í Domino‘s deild karla í körfuknattleik að kvöldi þrettándans. Var það fyrsti leikur Skallagríms í deildinni eftir jólafrí og máttu Borgnesingar sætta sig við tap, 78-94.

Skallagrímsmenn áttu erfitt uppdráttar í fyrsta leikhluta. KR-ingar mættu hins vegar ákveðnir til leiks og tóku öll völd á vellinum strax í upphafi. Eftir aðeins fjögurra mínútna leik höfðu þeir skorað 19 stig gegn tveimur stigum Skallagríms. Gestirnir stjórnuðu ferðinni og leiddu með tólf stigum eftir fyrsta leikhluta, 16-28. Borgnesingar tóku við sér í öðrum leikhluta en gestirnir héldu þeim þó alltaf í öruggri fjarlægð. Staðan í hléinu var 37-51, KR í vil.

Skallagrímsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn illa og skoruðu ekki stig fyrstu fjórar mínúturnar. Á meðan komust KR-ingar 24 stigum yfir og þeir fóru með þægilegt forskot inn í lokafjórðunginn, 53-74. Þar héldu þeir Skallagrímsmönnum í skefjum allt til leiksloka og sigruðu að lokum með 16 stigum, 78-94.

Gabríel Sindri Möller var stigahæstur í liði Skallagríms með 19 stig, Aundre Jackson var með 17 stig og ellefu fráköst og Domagoj Samac skoraði tólf stig og tók níu fráköst.

Julian Boyd skoraði 23 stig fyrir Kr og Kristófer Acox var með 21 stig, tólf fráköst og fimm stoðsendingar. Emil Barja skoraði 15 stig og gaf sjö stoðsendingar og Jón Arnór Stefánsson var með tíu stig, átta fráköst og sex stoðsendingar.

Skallagrímur er í ellefta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir to´lf leiki, fjórum stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan. Næst leika Borgnesingar á morgun, fimmtudaginn 10. janúar, þegar þeir heimsækja Grindvíkinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir