Aðventumót FBBN í pútti

Eldri borgarar í Borgarnesi héldu sitt árlega Aðventumót í pútti fimmtudaginn 13. desember sl. í Eyjunni í Brákarey. Til leiks mættu 25 manns, 13 karlar og 12 konur. Var það 89. æfing hópsins á árinu og hefur mæting verið mjög góð allt árið. Fjórir félagar hlutu viðurkenningu fyrir 100% mætingu á tímabilinu október til desember; Valur Thoroddsen, Indriði Björnsson, Þorbergur Egilsson og Magnús E. Magnússon.

Hlutskarpastur í Aðventumótinu án forgjafar í karlaflokki var Indriði Björnsson með 58 högg. Í öðru sæti var Guðmundur Bachmann með 61 högg og þriðja sætinu deildu bræðurnir Guðmundur og Þorbergur Egilssynir með 63 högg.

Árni Ásbjörn Jónsson vann keppni með forgjöf á 53 höggum. Annar varð Ágúst M. Haraldsson með 55 högg og þriðji Magnús E. Magnússon með 57 högg.

Anna Ólafsdóttir var hlutskörpust í kvennaflokki án forgjafar með 59 högg. Ásdís B. Geirdal var önnur með 61 högg og Lilja Ó. Ólafsdóttir þriðja einnig með 61 högg. Guðrún Helga Andresadótti stóð efst í kvennaflokki með fogjöf á 53 höggum.

Jónína B. Ingólfsdóttir var önnur með 54 högg og Guðrún B. Haraldsdóttir þriðja einnig með 54 högg.

Veitt voru verðlaun fyrir flest einpútt á innanhúsæfingum í haust. Hlutskarpastur varð Þorbergur Egilsson með 295 pútt eða 13 að meðaltali á æfingu. Hann vann einnig „þristabanann“ fyrir flesta 36 holu hringi án vítis. Fór hann alls 9 hringi án vítis á 22 æfingum eða 41% hringjanna. Pútthópur Borgarbyggðar hyggst mæta vel undirbúinn í púttmótin á komandi ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir