Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellingar töpuðu gegn Fjölni

Snæfell tók á móti Fjölni í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og spennandi þar til gestirnir sigu fram úr seint í leiknum og sigruðu að lokum með 17 stigum, 67-84.

Fjölnir byrjaði leikinn betur og komst í 6-17 um miðjan upphafsfjórðunginn. Snæfell náði þá góðri rispu og minnkaði muninn í fimm stig en gestirnir áttu lokaorðið í fyrsta leikhluta og leiddu með átta stigu að honum loknum, 17-25. Snæfellingar byrjuðu annan leikhluta af krafti. Þeir skoruðu tíu stig í röð, náðu forystunni og leiddu næstu mínúturnar. Fjölnir jafnaði metin en Snæfell tók forystuna að nýju og leiddi með þremur stigum í hálfleik, 41-38.

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi. Gestirnir náðu forystunni snemma en Snæfellingar komu til baka seint í leikhlutanum og komust yfir að nýju. Þá tók Fjölnir góða rispu og leiddi með tíu stigum fyrir lokafjórðunginn, 55-65. Þá forystu létu gestirnir aldrei af hendi. Þeir héldu baráttuglöðum Snæfellingum í skefjum til í fjórða leikhluta en juku muninn smám saman til leiksloka. Fjölnir sigraði, 67-84.

Dominykas Zupkauskas átti stórleik í liði Snæfells. Hann skora í 30 stig, gaf fimm stoðsendingar og stal hvorki fleiri né færri en níu boltum. Darrel Flake skoraði tólf stig og tók níu fráköst og Rúnar Þór Ragnarsson var með tíu stig.

Daníel Bjarki Stefánsson var betri en enginn í liði gestanna, skoraði 32 stig, reif niður 19 fráköst og varði sex skot. Vilhjálmur Theodór Jónsson skoraði 13 stig og tók fimm fráköst og Srdan Stojanovic skoraði tíu stig.

Ungt og efnilegt lið Snæfellinga er enn stigalaust á botni deildarinnar en miðað við hve mikið liðinu hefur farið fram undanfarin misseri er aðeins tímaspursmál hvenær liðið nær fyrsta sigrinum. Snæfell leikur næst föstudaginn 21. desember næstkomandi, þegar liðið mætir Hamri í Hveragerði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira