Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Baráttuglaðir Borgnesingar máttu játa sig sigraða

Skallagrímur mátti játa sig sigraðan gegn toppliði Tindastóls, 89-73, þegar liðin mættust í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var norður á Sauðárkróki. Tindastóll hafði heldur yfirhöndina framan af leik. Þeir byrjuðu betur og leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta, 23-16. Skallagrímsmenn gáfu heimamönnum ekkert eftir í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í þrjú stig. En Stólarnir leiddu áfram og fóru með sjö stiga forystu inn í hálfleikinn, 47-40.

Tindastóll komst tólf stigum yfir í upphafi síðari hálfleiks en þá tóku Skallagrímsmenn við sér. Með góðum kafla þar sem þeir skoruðu 13 stig í röð komust þeir yfir í fyrsta sinn í leiknum, 52-53. En forysta Skallagríms varði ekki lengi. Tindastóll komst yfir að nýju og hafði fimm stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 61-56. Heimamenn voru sterkari í fjórða leikhluta og sigu fram úr. Munurinn á liðinum var aldrei meiri en í leikslok. Tindastóll vann með 89 stigum gegn 73.

Aundre Jackson var stigahæstur í liði Skallagríms með 19 stig og sjö fráköst að auki. Domogoj Samac skoraði 19 stig og tók níu fráköst en aðrir höfðu minna.

Danero Thomas var atkvæðamestur í liði Tindastóls með 17 stig, Dino Butorac skoraði 15, Philip B. Alawoya var með tólf stig og níu fráköst, Pétur Rúnar Birgisson skoraði ellefu stig og Brynjar Þór Björnsson var með ellefu stig einnig.

Skallagrímur situr í ellefta sæti deildarinnar með fjögur stig, tveimur stigum meira en botnlið Breiðabliks en tveimur stigum á eftir næstu liðum. Næst leikur Skallagrímur fimmtudaginn 20. desember þegar liðið mætir Njarðvík í Borgarnesi. Er það jafnframt síðasti leikur liðsins fyrir jólafrí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir