Ljósm. Skallagrímur.

Misstu dampinn í síðari hálfleik

Skallagrímskonur máttu sætta sig við tap gegn Val þegar liðin mættust í áttundu umferð Domino‘s deildar kvenna í Borgarnesi í gær. Eftir að hafa verið öflugri framan af leik misstu Skallagrímskonur flugið í síðari hálfleik og töpuðu að lokum með 74 stigum gegn 96.
Borgnesingar byrjuðu leikinn af miklum krafti, léku þétta vörn og héldu Val í aðeins tólf stigum fyrstu sex mínúturnar. Eftir það tók Valsliðið við sér og Skallagrímur missti einbeitinguna í vörninni. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 29-25 fyrir Skallagrím. Mikið jafnræði var með liðunum framan af öðrum fjórðungi. Valur tók forystuna með góðri rispu eftir hann miðjan og leiddi mest með átta stigum. En Skallagrímskonur enduðu fyrri hálfleikinn af krafti og minnkuðu muninn í þrjú stig fyrir hlé, 46-49.
Gestirnir settu allt í botn strax í upphafi síðari hálfleiks en Skallagrímskonur áttu engin svör. Eins og hendi væri veifað voru Skallagrímskonur komnar 16 stigum yfir og þær höfðu þægilegt forskot fyrir lokafjórðunginn, 62-76. Skallagrímskonur minnkuðu muninn niður í niú stig snemma í fjórða leikhluta en nær komust þær ekki. Gestirnir spiluðu góða vörn og léku vel í sókninni það sem eftir lifði leiks og sigruðu, 74-96.
Maja Michalska var stigahæst í liði Skallagríms með 18 stig og átta fráköst að auki. Shequila Joseph var með 17 stig, sex fráköst og tólf stoðsendingar, Bryesha Blair ellefu stig og sex fráköst og þær Árnína Lena Rúnarsdóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoruðu ellefu stig hvor.
Heather Butler átti afbragðsgóðan leik fyrir Val, skoraði 25 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir var með 18 stig, fimm fráköst og sjö stoðsendingar, Dagbjörg Dögg Karlsdóttir 15 stig og Bergþóra Holton Tómasdóttir skoraði 13 stig.
Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinanr með sex stig eftir leiki helgarinnar, jafn mörg stig og Valur í sætinu fyrir ofan en tveimur stigum á undan Haukum. Næst leikur Skallagrímur sunnudaginn 25. nóvember næstkomandi, þegar liðið heimsækir Breiðablik.

Líkar þetta

Fleiri fréttir