Berglind Gunnarsdóttir í leik gegn Svartfjallalandi í nóvember á síðasta ári. Ljósm. FIBA.

Þrír Vestlendingar í landsliðshópnum

Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik og Hildur Sigurðardóttir aðstoðarþjálfari, hafa valið 14 manna landsliðshóp sem mætir Slóvakíu og Bosníu síðar í þessum mánuði. Liðið hefur æfingar í næstu viku og undirbýr sig fyrir síðustu tvo leikina í undankeppni EuroBasket 2019, sem fer fram í Lettlandi næsta sumar.

Þrír Vestlendingar eru í hópnum, systurnar Berglind og Gunnhildur Gunnarsdættur úr Snæfelli og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikmaður Skallagríms. Berglind hefur verið fastamaður í landsliðinu undanfarin misseri en Gunnhildur og Sigrún Sjöfn klæðast landsliðsbúningnum að nýju eftir fjarveru vegna meiðsla og barneigna.

Bríet Sif Hinriksdóttir úr Stjörnunni og Sigrún Björg Ólafsdóttir úr Haukum eru nýliðar í hópnum. Aðrir leikmenn eru; Birna Valgerður Benónýsdóttir Keflavík og Embla Kristínardóttir úr Keflavík, Guðbjörg Sverrisdóttir og Hallveig Jónsdóttir úr Val, Helena Sverrisdóttir, leikmaður VBW CEKK Cegléd, Hildur Björg Kjartansdóttir úr Celta de Vigo, Ragnheiður Benónísdóttir úr Stjörnunni, Sóllilja Bjarnadóttir, Breiðabliki og Þóra Kristín Jónsdóttir úr Haukum.

Ísland mætir Slóvakíu laugardaginn 17. nóvember og Bosníu miðvikudaginn 21. nóvember. Báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir