Kristen McCarthy átti stórleik. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellskonur einar á toppnum

Snæfell er eitt á toppi Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik eftir sannfærandi sigur á Val, 90-74. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Liðin fylgdust að fyrstu mínútur leiksins, en um miðjan upphafsfjórðunginn tóku Snæfellskonur öll völd á vellinum og höfðu góða forystu að honum loknum, 27-16. Þær höfðu góð tök á leiknum í öðrum fjórðungi, héldu Valsliðinu í þægilegri fjarlægð og leiddu með tólf stigum í hléinu, 42-28.

Snæfellskonur komu ákveðnar til síðari hálfleiks og juku forskot sitt enn frekar. Þær leiddu með 24 stigum eftir þriðja leikhluta, 74-50 og úrslit leiksins ráðin. Valur náði aðeins að klóra í bakkann í lokafjórðungnum en sigur Snæfells var aldrei í hættu. Lokatölur urðu 90-74, Snæfelli í vil.

Kristen McCarthy átti stórleik fyrir Snæfell á báðum endum vallarins. Hún skoraði 32 stig, reif niður 19 fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal sex boltum og varði þrjú skot. Berglind Gunnarsdóttir skoraði 21 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með tólf stig og Angelika Kowalska var með tólf stig og sex stoðsendingar.

Heather Butler skoraði 18 stig fyrir gestina og tók fimm fráköst og Bergþóra Holton Tómasdóttir var með 14 stig.

Snæfellskonur tróna einar á toppi deildarinnar eftir sigurleikinn á Val. Þær hafa tólf stig eftir sjö leiki, tveimur stigum meira en næstu lið fyrir neðan. Næsti leikur Snæfells er heimaleikur gegn Breiðabliki sunnudaginn 11. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira