Dregið í 16 liða úrslit bikarsins

Dregið var í viðureignir í 16 liða úrslitum Geysisbikars karla og kvenna í hádeginu í dag. Skallagrímur og ÍA voru í pottinum karlamegin eftir sigur í fyrstu umferð bikarsins. Bikardrátturinn fór á þá leið að Skallagrímur mætir 1. deildar liði Selfyssinga í Borgarnesi en ÍA heimsækir ÍR. Skagamenn leika sem kunnugt er í 2. deild en ÍR-ingar í Domino‘s deildinni.

Aðrar viðureignir eru á þá leið að Tindastóll tekur á móti Fjölni, Þór Þ. tekur á móti Njarðvík, Grindvíkingar taka á moti Njarðvík B, Stjarnan heimsækir Hamar, Vestri tekur á móti Haukum og KR B mætir KR, en sá leikur mun augljóslega fara fram í Vesturbæ Reykjavíkur.

 

Domino‘s viðureignir hjá konunum

Snæfell og Skallagrímur voru bæði í pottinum þegar dregið var í 16 liða úrslit bikarkeppni kvenna, sem jafnframt er fyrsta umferð hjá konunum. Bæði fengu Vesturlandsliðin útileiki gegn öðrum liðum í Domino‘s deildinni. Skallagrímur heimsækir Njarðvík en Snæfellskonur fara norður til Akureyrar og mæta Þór Ak.

Aðrar viðureignir eru þær að Valur fær Hamar í heimsókn, Haukar taka á móti Grindavík, ÍR mætir Keflavík B, Breiðablik heimsækir Tindastól, Stjarnan fær KR í heimsókn og Keflavík tekur á móti Fjölni.

Leikið verður í 16 liða úrslitum Geysisbikars karla og kvenna dagana 15.-17. desember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir