Eyjólfur Ásberg Halldórsson var besti maður Skallagríms í leiknum. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímur tapaði gegn Breiðabliki

Skallagrímsmenn máttu sætta sig við tap á útivelli gegn Breiðabliki í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gær. Borgnesingar fundu taktinn aldrei almennilega í leiknum og urðu því að sætta sig við tíu stiga tap, 93-83.

Blikar réðu lögum og lofum á vellinum í upphafi leiks en Skallagrímsmenn voru heillum horfnir. Einkum var varnarleikur Borgnesinga afleitur í upphafi. Það eina sem bjargaði Skallagrími var að varnarleikur heimamanna var ekki sá besti heldur. Blikar leiddu með ellefu stigum eftir upphafsfjórðunginn, 34-23. Sóknarleikur Skallagríms batnaði lítið eitt í öðrum leikhluta en Blikar voru áfram sterkari og leiddu með 14 stigum í hléinu, 53-39.

Heimamenn byrjðu betur í síðari hálfleik og enn þyngdist róður Skallagrímsmanna, sem gekk illa að finna taktinn í leiknum. Staðan var orðin 63-44 þegar Skallagrímur skipti yfir í svæðisvörn að eitthvað fór að ganga hjá þeim. Þeir náðu að laga stöðuna í 74-65 fyrir lokaleikhlutann. Blikar héldu forystunni í fjórða leikhluta. Skallagrímur náði að minnka muninn í 86-81 þegar stutt lifði leiks en nær komust þeir ekki og heimamenn sigruðu á endanum með 93 stigum gegn 83.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson var besti maður Skallagríms í leiknum. Hann skoraði 22 stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Aundre Jackson var með 21 stig og fimm fráköst, Matej Buovac skoraði 20 stig og Bjarni Guðmann Jónsson skoraði tíu og tók sjö fráköst.

Christian Covile skoraði 26 stig, reif niður 22 fráöst og gaf sjö stoðsendingar í liði heimamanna. Snorri Vignisson var með 16 stig, sex fráköst og fimm stolna bolta, Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði 16 stig og tók fimm fráköst og Snorri Hrafnhelsson skoraði 16 stig einnig.

Skallagrímur hefur fjögur stig eftir fimm leiki og situr í sjötta sæti deildarinnar þegar þessi orð eru rituð. Næst leika Borgnesingar föstudaginn 9. nóvember þegar þeir mæta Haukum á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir