Gylfi Sigurðsson í þann mund að skjóta að marki. Ísland sótti stíft undir lok leiksins og með ólíkindum að Svisslendingar hafi náð sigri á Laugardalsvelli. Ljósm. þe.

Ísland án sigurs í Þjóðadeildinni

Ísland er enn án sigurs í A deild Þjóðadeildar UEFA eftir 2-1 tap gegn Sviss á Laugardalsvellinum í gærkvöldi.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill og lítið um opnanir. Staðan í hléinu var því 0-0 en Svisslendingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti. Þeir komust yfir á 52. mínútu þegar Haris Seferovic skoraði með skalla af stuttu færi. Þeir höfðu góð tök á leiknum eftir markið og bættu við öðru marki á 67. mínútu þegar Michael Lang skoraði af stuttu færi eftir að Svisslendingar höfðu galopnað vörn Íslands.

Það var síðan á 81. mínútu sem Alfreð Finnbogason skoraði glæsilegt mark með þrumuskoti af löngu færi og minnkaði muninn í 2-1. Íslenska liðið sótti stíft á lokamínútum leiksins og gestirnir mega prísa sig sæla að halda forystunni. Í eitt skiptið björguðu Svisslendingar á marklínu eftir þunga sókn íslenska liðsins, sem var hættulegt fram á við um leið og það öðlaðist sjálfstraust til að sækja. En þrátt fyrir að hafa legið á gestunum undir lokin tókst Íslandi ekki að skora og Sviss fór því með 2-1 sigur af Hólmi.

Ísland hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í Þjóðadeildinni, tveimur gegn Sviss og einum gegn Belgíu. Því er útséð að Ísland fellur niður í B deild þjóðadeildarinnar, þrátt fyrir að einn leikur gegn Belgíu sé eftir. Sá fer fram í Brussel fimmtudaginn 15. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir