Ljósm. Sumarliði Ásgeirsson

Grunnskólabörn í varðskipinu Þór í Stykkishólmi

Varðskipið Þór kom í fyrsta sinn til hafnar í Stykkishólmi síðastliðinn fimmtudag. Nemendum í þriðja bekk í Grunnskólanum í Stykkishólmi var boðið um borð í varðskipið og fengu þeir bæði höfðinglegar móttökur og leiðsögn hjá sjálfum forstjóra Gæslunnar; Georg Lárussyni. Börnin í þriðja bekk eru um tuttugu talsins. Þau voru að vonum glöð með þetta boð en ljósmyndari Skessuhorns fékk að slást með í för og mynda. Auk þriðju bekkinga fengu börnin í fyrsta bekk grunnskólans að kíkja í smástund um borð í skipið.

Á upplýsingasíðu Landhelgisgæslunnar segir að vissulega hafi önnur skip frá Landhelgisgæslunni, eins og minni varðbátar og rannsóknaskipið Baldur, lagst að í Stykkishólmi. Koma Þórs til hafnar nú hafi hins vegar verið fyrsta viðkoma sem stærri skip Landhelgisgæslunnar ættu að bryggju þar. Gæslumenn þakka það mælingum, sjókortagerð af svæðinu og almennt öruggari upplýsingum um sjávarföll auk góðs tækja- og vélabúnaður varðskipsins. Allt þetta auðveldi aðsiglingu og stjórntök við tiltölulega þröngar aðstæður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir