Stefán Örlygsson úr Skotfélagi Akranesi að loknu bikarmóti á sunnudaginn. Ljósmynd: Guðmundur Kr. Gíslason.

Stefán Gísli bikarmeistari í haglabyssuskotfimi annað árið í röð

Stefán Gísli Örlygsson úr Skotfélagi Akraness varð um helgina bikarmeistari í haglabyssuskotfimi (Skeet) annað árið í röð. Hann tryggði sér titilinn með sigri á síðasta móti mótaraðarinnar, sem haldið var í Álfsnesi á svæði Skotfélags Reykjavíkur. Fékk hann 58 stig af 60 mögulegum í mótunum fjórum.

Stefán hefur átt góðu gengi að fagna á tímabilinu. Hann hefur farið á tvö heimsbikarmót það sem af er þessu ári og eitt Evrópumeistaramót. Á öðru heimsbikarmótinu sem haldið var í Tucson í Arizona í Bandaríkjunum settu Stefán og félagar hans í landsliðinu Íslandsmet í liðakeppni í haglabyssuskotfimi. Stefán hafnaði í 38. sæti á mótinu af um 80 keppendum.

 

Heimsmeistaramót framundan

Um næstu helgi fer Stefán á Heimsmeistaramótið í skotfimi í Suður-Kóreu. Keppendur í mótinu eru um 1800 talsins í öllum greinum. Í haglabyssuskotfimi etja kappi 113 bestu skyttur í heimi og er Stefán einn af þeim. Aðeins þrjár bestu skyttur frá hverju landi fá þátttökurétt í hverri grein á heimsmeistaramótinu. Alls eru sjö keppendur frá Íslandi á leið á heimsmeistaramótið á vegum Skotsambands Íslands; þrír í haglabyssuskotfimi og fjórir í kúlugreinum.

Þess má geta að Stefán komst inn á heimslista Alþjóðaskotsambandsins ISSF í haglabyssuskotfimi í sumar og er þar í 91. sæti, eftir síðustu uppfærslu listans 1. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira