Erik Hamrén, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins.

Erik Hamrén tekur við íslenska landsliðinu

Sænski knattspyrnuþjálfarinn Erik Hamrén hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Hann tekur við starfinu af Heimi Hallgrímssyni sem lét af störfum eftir HM í Rússlandi fyrr í sumar. Formlega var tilkynnt um ráðningu Hamréns í dag. Á sama tíma var Freyr Alexandersson kynntur sem aðstoðarmaður hans. Samið var við báða til tveggja ára.
Erik Hamren er reynslumikill þjálfari. Hann gerði AaB að dönskum meisturum árið 2008 og Rosenborg að Noregsmeisturum bæði 2009 og 2010. Þá hefur hann einnig orðið sænskur bikarmeistari, með AIK 1996 og 1997 og með Örgryte árið 2000. Hann var kosinn þjálfari ársins í Danmörku árið 2008 og árið efir þjálfari ársins í Noregi.
Hann tók við þjálfun sænska karlalandsliðsins árið 2010 og kom liðinu á EM bæði 2012 og 2016. Þá kom hann sænska landsliðinu í umspil undankeppni HM 2014 þar sem liðið þurfti að játa sig sigrað gegn Portúgal. Sigurhlutfall sænska landsliðsins undir stjórn Eriks er 54,22 prósent.

Líkar þetta

Fleiri fréttir