Rebekka Eiríksdóttir á Stað sigraði í akstursleiknina eins og hún hefur gert átta sinnum áður.

Reykhóladagar afslappaðir og skemmtilegir

Reykhóladagar fóru fram um dagana 27.-29. júlí síðastliðna. Dagskráin var að mestu leyti hefðbundin. Dráttarvélasýningin er líklega sá viðburður sem flestir telja einkenna hátíðina og var hún að sjálfsögðu á sínum stað. Venju samkvæmt var síðan keppt í dráttarvélaleikni að sýningunni lokinni. Sú keppni er löngu orðin víðfræg, en þar er ekið eftir þrautabraut á reynslumiklum Massey Ferguson. Sigurvegari í kvennaflokki var Rebekka Eiríksdóttir á Stað, en þetta var í níunda sinn sem hún hampar titlinum. Bergur Þrastarson, bóndi á Reykhólum, sigraði í karlaflokki. Næst var bryddað upp á nýjung, svokölluðu læðutogi. Þar var Læðan, bíldruslan sem gerði garðinn frægan í Vaktaseríunum, dregin með handafli af hraustum hátíðargestum. Sigurvegari þar var Ágúst Már Gröndal á Reykhólum.
Fjögur lið tóku þátt í þaraboltanum, þar sem leikinn er heldur frjálslegur fótbolti á blautum og sleipum velli sem fullur er af þangi og þara. Hæfileikakeppni barnanna vakti mikla lukku, eins og reyndar allir dagskrárliðir sem ekki verða taldir hér. Andrúmsloftið var afslappað að vanda og veður gott framan af. Reyndar gerði rigningu um miðjan dag á laugardag en stytti upp fyrir kvöldvökuna og brekkusönginn. Dansþyrstir gestir slettu síðan úr klaufunum á stórdansleik í íþróttahúsinu um kvöldið.

Myndasyrpu frá Reykhóladögum er að finna í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir