Skagakonur burstuðu Fjölni

ÍA vann stórsigur á Fjölni, 4-0, þegar liðin mættust í 12. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu á Akranesvelli í gær. Frá fyrstu mínútu var ljóst í hvað stefndi. Skagakonur voru mun sterkari allan leikinn og sigur þeirra verðskuldaður.
ÍA byrjaði leikinn af miklum krafti og komst yfir strax á 8. mínútu leiksins. Maren Leósdóttir átti sendingu inn í teiginn á Evu Maríu Jónsdóttir sem stangaði boltann í netið með föstum skalla. Skagakonur sóttu stíft eftir markið og sköpuðu sér ágætis færi en herslumuninn vantaði upp á til að bæta við. Gestirnir úr Grafarvoginum áttu á sama tíma erfitt uppdráttar og fundu ekki taktinn.
Annað mark ÍA kom síðan á 28. mínútu leiksins. mínútu. Þá lagði Maren boltann til hliðar á Karen Þórisdóttur sem tók við honum utarlega í vítateignum. Karen var ekkert að tvínóna við hlutina heldur þrumaði boltanum upp í samskeytin og kom ÍA í 2-0. Þannig var staðan í hálfleik.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Gestirnir fundu sig betur en í fyrri hálfleiknum og náðu að skapa sér nokkur hálffæri. Þær virkuðu þó aldrei líklegar til að ógna marki ÍA að neinu ráði. Sóknartilburðir Skagakvenna voru ekki upp á marga fiska framan af síðari hálfleiknum, en undir lokin gerðu þær út um leikinn. Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði með þrumufleyg af 25 metra færi á 83. mínútu. Það var síðan Fríða Halldórsdóttir sem innsiglaði öruggan 4-0 sigur ÍA í uppbótartíma þegar hún skoraði með skalla eftir hornspyrnu Bergdísar.
ÍA situr sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 25 stig, þremur stigum á eftir toppliði Keflavíkur sem þó á tvo leiki til góða. Næst leikur ÍA gegn Þrótti á útivelli föstudaginn 10. ágúst næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir