Harmonikkutónleikar í Reykholtskirkju á morgun

Norsk harmonikkuhljómsveit heldur tónleika í Reykholtskirkju á morgun, fimmtudaginn 2. ágúst. Sveitin er skipuð tíu harmonikkuleikurum auk bassaleikara og gítarleikara. Hún hefur á undanförnum árum komið fram á hinum ýmsu harmonikkumótum á Norðurlöndum og unnið til margra verðlauna fyrir sérlega vandaðan flutning. „Hljómsveitin er hér á vegum Félags harmonikkuunnenda í Reykjavík og mun koma fram á árlegu harmonikkumóti félagsins um verslunarmannahelgina að Borg í Grímsnesi,“ segir í tilkynningu. „Áður en að því kemur mun hljómsveitin fara í skoðunarferðir um landið og halda í leiðinni tónleika í kirkjunni í Reykholti, en staðurinn er mörgum Norðmönnum hugleikinn, enda saga Noregskonunga rituð á staðnum.“

Stjórnandi hljómsveitarinnar er Oddbhjørn Kvalholm Nikolaisen og eru m.a. á tónleikaskránni lög eftir Karl Grønstedt, Asmund Bjørken og Leif Göras. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00, fimmtudaginn 2. ágúst og aðgangur er ókeypis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir