Skagamenn gáfu toppsætið frá sér

Karlalið ÍA þurfti að sætta sig við tap þegar það sótti Þrótt heim í 11. umferð Inkassodeildarinnar í Laugardalnum síðastliðinn föstudag. ÍA sat fyrir leikinn á toppi deildarinnar og þrjú stig því mikilvæg til að halda efsta sætinu. ÍA byrjaði leikinn tiltölulega vel en missti dampinn eftir því sem leið á leik. Gestgjafarnir nýttu sér þetta og sóttu af hörku og komust yfir á 18. mínútu þegar Viktor Jónsson skoraði eftir vandræðagang í vörn þeirra gulklæddu. Einungis sex mínútum síðar var þróttarinn Viktor Jónsson aftur á ferðinni og náði stungusendingu á liðsfélaga sinn, Daða Bergsson, sem kom heimamönnum í stöðuna 2-0. Þrátt fyrir slaka byrjun náðu Skagamenn að skapa sér betri færi eftir því sem leið á hálfleikinn. Á 40. mínútu átti Hörður Ingi Gunnarsson góða sendingu á Stefán Teit Þórðarson sem kom boltanum í netið og minnkaði muninn í eitt mark áður en flautað var til hálfleiks.

Þróttur byrjaði þann síðari af miklum krafti og bættu við þriðja markinu á 50. mínútu. Heimamenn voru miklu líflegri og áttu betri færi það sem eftir var af leik á meðan Skagamenn litu heldur orkulitlir út. Viktor Jónsson innsiglaði svo sigur heimamanna á 87. mínútu þegar hann skilaði boltanum örugglega í netið hjá Skagamönnum. Lokatölur 4-1 og verðskuldaður sigur Þróttar.

Með tapi misstu Skagamenn efsta sætið til HK sem er þó einungis með tveggja stiga forskot. Þróttur aftur á móti fær fínt hopp upp töfluna og fer úr því sjöunda upp í það fimmta með þessum góða sigri á Skagamönnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.