Skagakonur í bikarleik. Ljósm. úr safni.

Skagakonur gerðu jafntefli

ÍA gerði jafntefli í fjörugum leik gegn Aftureldingu/Fram í níundu umferð Inkassodeildar kvenna í gær. Fyrir leik skipuðu Skagakonur annað sætið í deildinni og voru búnar að vinna tvo auðvelda sigra í röð og því fullar sjálfstrausts komandi inn í viðureignina. Leikurinn fór fram á Varmárvelli í Mosfellsbæ.

Vestlendingar byrjuðu leikinn af krafti og strax í fyrstu sókn átti Maren Leósdóttir hörku skot í stöng. Jafnt var með liðum megnið af fyrri hluta leiks og bæði lið sóttu ákaft. Eftir því sem leið á hálfleikinn áttu Skagastelpur þó vígalegri færi sem illa gekk að nýta. Staðan í hálfleik því markalaus.

Í síðari hálfleik byrjaði Afturelding/Fram vel og gerði ÍA erfitt fyrir í vörn og á 49. mínútu skoraði Samira Suleman hið fínasta mark og kom heimastúlkum yfir. Töluvert meira fjör færðist í leik liðanna og náði ÍA að jafna metin á 66. mínútu. Þar var á ferðinni Bergdís Fanney Einarsdóttir sem gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu. Það dró svo aftur til tíðinda tveimur mínútum seinna þegar Bergdís Fanney var aftur á ferðinni og náði að koma sér í gegnum vörn heimamanna og setja boltann í netið og Skagakonum í framsætið. Forystan dugði þó skammt því Mosfellingar jöfnuðu með marki frá Janet Egyr á 71. mínútu. Ekki komu fleiri mörk í leiknum og þurftu liðin að sættast á jafnan hlut. Lokatölur 2-2.

Líkar þetta

Fleiri fréttir