Annað af mörkum heimamanna staðreynd. Ljósm. af.

Sigur á Ólafsvíkurvelli

Víkingur Ó. nældi sér í þrjú stig þegar liðið vann Fram á heimavelli í 12. umferð Inkassodeildarinnar í gær. Snæfellingar hafa verið á góðri siglingu síðustu vikur enda eru þeir í flottri baráttu í efri hluta deildarinnar, unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum en liðið gerði jafntefli í útileik við Njarðvík í síðustu umferð.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og voru til alls líklegir þrátt fyrir töluverðan vind sem gerði leikmönnum beggja liða erfitt fyrir. Ekki leið á löngu þar til fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Á 19. mínútu náði Ólafsvíkingurinn Kristinn Magnús Pétursson að leika á andstæðinginn og átti fallega sendingu á fjærstöng þar sem Kwame Quee var á réttum stað og kom boltanum í netið. Fjörið jókst og bæði lið sóttu af krafti. Það var svo á 37. mínútu sem að einhver troðningur átti sér stað í vítateig gestanna. Kristinn Magnús náði þá að reka tánna í boltann með þeim afleiðingum að boltinn skoppaði af baki á leikmanni Fram og endaði í netinu. Hálf klaufalegt mark en mark engu að síður og staðan 2-0 fyrir heimamönnum þegar gengið var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var heldur tíðindalítill. Heimamenn féllu töluvert aftur og voru lítið að sækja. einhver spjöld fengu að líta dagsins ljós því hiti var í mönnum. Á annarri mínútu uppbótartíma var svo dæmt víti á Ólafsvíkinga. Framarinn Guðmundur Magnússon setti boltann örugglega í markið og gaf gestunum örlitla glætu. Það dugði þó ekki til og niðurstaðan 2-1 Víkingi í vil.

Líkar þetta

Fleiri fréttir