Fríða Halldórsdóttir var valin maður leiksins. Hér er hún með Margréti Ákadóttur, stjórnarformanni KFÍA. Ljósm/ KFÍA.

ÍA konur á góðri siglingu

Skagakonur unnu sannfærandi sigur á Hömrunum þegar liðin mættust í Akraneshöllinni í áttundu umferð Inkassodeildar á miðvikudaginn. Ljóst var að heimastúlkur áttu góðan möguleika á sigri þar sem andstæðingarnir að norðan dvelja í neðri hluta deildarinnar sem hafa ekki átt góðu gengi að fagna það sem af er tímabilsins.

Vestlendingar byrjuðu af krafti í upphafi leiks og kom fyrsta markið strax á annarri mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir átti góða sendingu á Maren Leósdóttur sem lagði boltann í netið fyrir ÍA. Unnur Ýr var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum seinna þar sem hún lagði upp sitt annað mark í leiknum en þá var það Bryndís Rún Þórólfsdóttir sem kláraði færið með góðu skoti. Eftir þessa sterku byrjun róaðist leikurinn örlítið og jafnara var með liðum. Á 31. mínútu náðu Akureyringar að minnka muninn þegar Emelía Eir Pálsdóttir átti góða fyrirgjöf inn í vítateig ÍA þar sem Aldís María Jóhannsdóttir skoraði skallamark. Þetta hafði ekki stóráhrif á þær gulu sem héldu áfram að spila eftir sínu leikplani og tíu mínútum seinna nýtti Unnur Ýr sér mistök í vörn gestanna og skoraði þriðja markið fyrir Skagakonur. Rétt fyrir hálfleik átti Maren Leósdóttir góða sendingu á Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur sem skildi vörn gestanna eftir og skoraði af miklu öryggi og kom ÍA í þægilega stöðu fyrir seinni hálfleik, 4-1.

Skagakonur byrjuðu seinni hálfleik af sama krafti og í þeim fyrri. Á 51. mínútu átti Fríða Halldórsdóttir langt skot sem dúndraðist í þverslána og skoppaði beint á marklínu hjá gestunum þar sem Unnur Ýr gat potað boltanum yfir línuna í markið. Hamrarnir áttu ekki roð í Skagakonur sem héldu áfram að sækja af mikilli orku. Síðasta mark leiksins kom á 71. mínútu þegar Fríða Halldórsdóttir gaf boltann á samherjann sinn, Heiðrúnu Söru Guðmundsdóttur, sem kom boltanum örugglega í netið. Lokatölur 6-1 og verðskuldaður sigur ÍA.

Með sigrinum heldur ÍA áfram að styrkja stöðu sína í efri hluta deildarinnar og er liðið einungis einu stigi á eftir toppliði Keflavíkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir