Markaveisla Skagakvenna á Akranesvelli

Skagakonur áttu frábæran dag þegar þær tóku á móti Sindra á Akranesvelli í Inkasso-deild kvenna í gær. ÍA gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk gegn gestunum sem verma botnsætið í deildinni. Ljóst var í upphafi leiks að mikilvægt var fyrir heimamenn að tryggja þrjú stig til að halda sér í toppbaráttunni.

Það var Unnur Ýr Haraldsdóttir sem skoraði tvö mörk stuttu eftir að leikurinn hófst og setti þannig tóninn á markaveislunni sem framundan var. Alls gerði Unnur Ýr fimm mörk í leiknum. Þær stúlkur sem einnig lögðu boltann í netið voru Heiðrún Sara Guðmundsdóttir, Maren Leósdóttir, Erla Karítas Jóhannesdóttir og svo Bergdís Fanney Einarsdóttir með tvö. Sindri átti engin svör gegn sóknarleik þeirra gulu og lokatölur því 11-0. Með sigrinum batt ÍA enda á þriggja leikja taprunu sína.

Skagakonur eru í fjórða sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Fylkir sem er í þriðja sæti þegar sjö umferðir eru búnar og hefur Vesturlandsliðið góða möguleika á að setja sig í baráttu með efstu liðum. Keflavík trónir á toppnum með 13 stig, jafnmörg stig og Haukar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir