Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, hafði í nógu að snúast í leiknum gegn FH. Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagamenn úr leik í bikarnum

Skagamenn hafa lokið þátttöku sinni í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 1-0 tap gegn Pepsi deildar liði FH í átta liða úrslitum. Liðin mættust á Akranesvelli í gærkvöldi.

FH-ingar skoruðu eina mark leiksins strax á 3. mínútu. Atli Guðnason fékk boltann úti á vinstri kanti. Hann leit upp og sendi frábæra lága fyrirgjöf fyrir markið, beint á Brand Olsen sem var einn og óvaldaður í teignum og skoraði auðveldlega.

Gestirnir úr Hafnarfirði voru sterkari eftir markið og réðu ferðinni í leiknum. Skagamenn fengu þó sína sénsa. Þeir komust tveir á tvo eftir 20 mínútna leik en náðu ekki að gera sér mat úr því. Litlu munaði að FH bætti við marki þegar Steven Lennon slapp einn í gegn, lék á Árna Snæ Ólafsson í markinu en skaut rétt framhjá. Gestirnir fengu svo dauðafæri rétt fyrir hálfleik. Halldór Orri Björnsson fékk boltann í teignum, fór framhjá Árna í markinu en skot hans var svo laflaust að Árni greip það á línunni. Staðan því 1-0 fyrir gestina í hálfleik.

Skagamenn voru sprækari í upphafi síðari hálfleiks og áttu oft og tíðum álitlegar sóknir án þess að skapa sér afgerandi marktækifæri. Litlu munaði að þeir jöfnuðu á lokamínútu leiksins. Þeir fengu hornspyrnu og fóru allir inn í teig. Boltinn var sendur fyrir og skapaðist mikil hætta við mark FH-inga. Skagamenn áttu ein þrjú skot að markinu en inn vildi boltinn ekki og þar við sat. FH sigraði með einu marki gegn engu og Skagamenn eru dottnir úr leik í bikarnum að þessu sinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir