Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði eina mark ÍA gegn Fylki. Ljósm. úr safni/ gbh.

ÍA lá fyrir Fylki

Skagakonur máttu játa sig sigraðar fyrir Fylki, 4-1, í sjöttu umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu á laugardag. Leikið var á Fylkisvelli í Árbænum í Reykjavík.

Heimaliðið kom mjög ákveðið til leiks og náði forystunni strax á 6. mínútu þegar Marija Radojicic skoraði. Skagkonur komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á en Fylkisliðið var áfram sterkara og líklegra til að bæta við. Sú varð einmitt raunin á 30. mínútu þegar Kristín Þóra Birgisdóttir kom Fylki í 2-0. En að þessu sinni náðu Skagakonur að svara strax þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir minnkaði muninn skömmu síðar eftir góðan undirbúning Marenar Leósdóttur.

Fylkiskonur gerðu síðan út um leikinn með afar góðum kafla á lokamínútum fyrri hálfleiks. Kristín Þóra skoraði annað mark sitt á 40. mínútu og Hanna María Jóhannsdóttir kom Fylki í 4-1 á 42. mínútu.

Töluvert meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Skagakonur gerðu hvað þær gátu og náðu að skapa sér ágætis marktækifæri en tókst ekki að gera sér mat úr þeim. Fylkiskonur áttu sömuleiðis nokkrar álitlegar sóknir en náðu ekki að bæta við marki. Þeim lá þó ekkert á að bæta við heldur einbeittu sér að því að halda fengnum hlut, enda höfðu þær komið sér í afar góða stöðu í fyrri hálfleik. Leikurinn fjaraði hægt og rólega út og lauk með öruggum sigri Fylkis, 4-1.

ÍA er eftir leikinn í fimmta sæti deildarinnar með níu stig, tveimur stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan. Næst leika Skagakonur gegn Sindra á laugardaginn, 30. júní næstkomandi. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.