Á safninu er að finna alls konar leikföng, gömul sem ný. Ljósm. glh.

Leikfangasafn opnað í Borgarnesi

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní opnaði Margrét Rósa Einarsdóttir leikfangasafn í Englendingavík í Borgarnesi. „Þetta safn samanstendur af safni sem var í Iðnó, safni frá Ósk Elínu Jóhannesdóttur og líka frá vinum og ættingjum. Munir sem ég hef verið að sanka að mér hægt og rólega í gegnum tíðina“ segir Margrét í samtali við Skessuhorn. Hún segir að í rauninni hafi safnið komið til vegna þess að hún vissi af þessu auða rými. „Mig hefur alltaf langað til að sýna þetta dót sem ég hef safnað að mér í gegnum árin og vissi af þessu ónotaða plássi hérna í Englendingavík. Ég veit að fólk á eftir að hafa gaman af þessu, það á eftir að koma hingað inn og segja „Vá! Manstu eftir þessu?“,“ segir Margrét hátt og hlær svo. Hún telur að ungir sem aldnir eigi eftir að hafa gaman af því að koma og skoða þessi leikföng sem mörg finnast ekki í dótabúðum í dag. „Þetta eru svona leikföng frá gamalli tíð en líka einhver nýrri. það er svolítil nostalgía í þessu öllu saman.“

 

Eins og kirkjurnar í gamla daga

Safnið var opnað 17. júní en það verður opið fyrir gesti alla daga í sumar frá klukkan 11 til 17 og hefur fólk kost á því að setja pening í bauk sem frjáls framlög til safnsins. „Þetta verður eins og kirkjurnar í gamla daga, alltaf opið og fólk getur komið inn og skoðað.“ Einnig ætlar Margrét að bjóða uppá sögustund á safninu á sérstökum dögum þar sem börn geta komið og hlýtt á sögur. „Þegar eitthvað sérstakt er í gangi þá mun kona eða maður sitja hér á stól og lesa fyrir börnin sem fá púða og pullur til að sitja á á gólfinu,“ segir Margrét og bendir í átt að stól í einu horninu. „Á öðrum dögum ætla ég svo að kenna börnum að búa til föt á dúkkulísur eins og ég gerði í gamla daga. Þá fær yngri kynslóðin að dunda sér við þetta og búa til alveg frá grunni. Þau þurfa til dæmis að teikna og lita fötin.“

Allt verður þetta auglýst á Facebook síðu safnsins með góðum fyrirvara samkvæmt Margréti en síðuna má finna undir nafninu Leikfangasafn Soffíu sem er jafnframt nafnið á safninu. „Ég skírði safnið í höfuðið á uppáhalds frænku minni sem er mér afar kær, henni Soffíu Pétursdóttur frá Hraundal.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir