Guðrún Björg Bragadóttir og Guðlaugur Sigurgeirsson. Ljósm. arg.

Opnuðu smáhýsagistingu í Hörðudal

Í Hlíð í Hörðudal í Dalasýslu hafa hjónin Guðrún Björg Bragadóttir og Guðlaugur Sigurgeirsson opnað lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur fengið nafni Dalahyttur. Þar hafa þau sett upp þrjú smáhýsi og móttökuhús með litlum matsal. Smáhýsin eru 12 fermetrar að stærð vel búin með baðherbergi, eldunaraðstöðu og svefnplássi fyrir þrjá.

Þau Guðrún og Guðlaugur fluttu úr Kópavogi í Dalina fyrir tveimur árum, gagngert til að opna ferðaþjónustu. En hvernig enduðu þau í Dölunum? „Eina tengingin okkar var í raun sumarhús sem við eigum hér í Laugardal. Við höfum í gegnum árin mikið notað þetta sumarhús og alltaf þótt svo gott að komast hingað í sveitina úr skarkalanum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðrún.

 

Hugurinn leitaði alltaf í Dalina

Guðrún er Selfyssingur og Guðlaugur kemur úr Kópavoginum en þau segja sveitina alltaf hafa togað í þau. „Við höfðum alltaf hugsað okkur að búa á Suðurlandi en svo þegar við tókum ákvörðun um að flytja í sveit var bara eitthvað við Vesturland sem togaði okkur þangað,“ segir Guðrún. „Við byrjuðum að leita að landssvæði í Borgarfirðinum og vorum ansi nálægt því að kaupa þar en hugurinn leitaði alltaf aftur í Dalina. Við ákváðum að prófa að tala við Svavar og Rakel sem eiga jörðina hér í Hlíð og þau tóku vel í að láta okkur fá smá svæði undir ferðaþjónustu. Þar með var þetta slegið og við fluttum hingað,“ bætir Guðlaugur við. „Hér höfum við það mjög gott. Lífið gengur bara örlítið hægar í sveitinni og það þykir okkur mjög gott. Við eigum eina 11 ára stelpu sem unir sér mjög vel hér í sveitinni og er hún stór ástæða fyrir því að við vildum fara af höfuðborgarsvæðinu,“ bætir Guðrún við. „Dalirnir hafa líka upp á svo margt að bjóða í ferðaþjónustu. Hér er falleg náttúra og Dalirnir eru mjög miðsvæðis fyrir Vesturland. Þú ert ekki nema um einn til tvo klukkutíma að keyra hvert sem er í landshlutanum úr Dölunum, hvort sem það er í Húsafell, Hvammstanga eða út á Snæfellsnes, þetta er allt hér í nágrenninu.“

 

Nánar er rætt við Guðrúnu og Guðlaug í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir