Fjölgar um þriðjung í verk- og starfsnámi

Nemendum sem innritast á verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla landsins fjölgar um 33% frá síaðsta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun var mest ásókn í nám í rafiðngreinum, til dæmis rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun, rafvirkjun og hljóðtækni. Einnig var mikil ásókn í málmiðngreinar, s.s. blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun.

Flestir nemendur innritast á bóknáms- eða listnámsbrautir til stúdentsprófs, eða alls 69% þeirra sem sóttu um nám. Um 16% nemenda eru innritaðir á verk- eða starfsnámsbrautir, 15% á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut. Er það lægra hlutfall en undanfarin ár.

 

Langflestir fara í framhaldsskóla

Alls sóttu 3.930 nemendur um skólavist í framhaldsskólum fyrir haustönn 2018. Eru það 95,6% allra þeirra sem útskrifuðust úr grunnskóla nú í vor. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla. Alls fengu 89% umsækjenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í fyrsta vali og 9% nemenda fengu skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í öðru vali. Alls 65 nemendur, eða 2%, fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir óskuðu eftir. Sá sá Menntamálastofnun um að útvega þeim skólavist í þriðja skóla. Flestir þeir sem tilheyrðu þessum hóp uppfylltu ekki inntökuskilyrði í það nám sem sótt var um. Þetta eru færri nemendur en á liðnu ári, en þá voru þeir 81.

Undanfarin ár hafa nokkrir skólar notið mikilla vinsælda hjá umsækjendum og var engin breyting á því í þessari innritun. Samkeppnin um pláss var því hörð og þurftu skólar sem fengu hvað flestar umsóknir að vísa umsækjendum frá. Verzlunarskóli Íslands, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn við sund fengu flestar umsóknir um skólavist.

Líkar þetta

Fleiri fréttir