Sigurinn á Þór var þriðji sigur Víkings Ó. í röð. Ljósm. úr safni/ af.

Tóku öll völd á vellinum í síðari hálfleik

Víkingur Ó. gerði góða ferð norður til Akureyrar í gær þar sem liðið sigraði Þór með tveimur mörkum gegn engu í 1. deild karla í knattspyrnu. Sólskin og gola var norðan heiða á leikdegi og aðstæður til knattspyrnuiðkunar góðar.

Jafnræði var með liðunum og leikurinn fjörugur framan af fyrri hálfleik. Heimamenn voru meira með boltann en Ólafsvíkingar lágu til baka og beittu skyndisóknum. Bæði lið sýndu ágæta takta í fyrri hálfleik, án þess þó að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri. Umdeilt atvik átti sér stað á 35. mínútu. Langur bolti var sendur inn fyrir á Gonzalo Zamorano sem var sloppinn einn í gegn og kominn inn í vítateiginn. Óskar Elías Óskarsson virtist brjóta á honum en dómari leiksins dæmdi ekkert. Ólafsvíkingar voru mjög ósáttir og heimamenn virtust þarna hafa sloppið með skrekkinn. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik og staðan því 0-0 í hléinu.

Leikmenn Víkings Ó. mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og tóku yfir leikinn. Þeir voru mun sterkari en tókst reyndar ekki að brjóta ísinn fyrr en á 77. mínútu. Þá átti Gonzalo frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Kwame Quee sem lagði boltann snyrtilega í markið.

Ólafsvíkingar létu kné fylgja kviði því þeir bættu öðru marki við aðeins tveimur mínútum síðar. Ingibergur Kort Sigurðsson átti átti þá glæsilegt skot rétt utan vítateigs sem hafnaði uppi í markvinklinum. Algerlega óverjandi fyrir markvörðinn og Víkingsliðið búið að gera út um leikinn, 2-0.

Víkingur Ó. situr í þriðja sæti deildairnnar með 16 stig eftir átta leiki, tveimur stigum á eftir HK og tveimur á undan Þór. Næsti leikur Víkings er Vesturlandsslagur á móti ÍA, föstudaginn 29. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir