Albert Hafsteinsson í leik. Ljósm. úr safni gbh.

ÍA burstaði Magna

ÍA vann stórsigur á Magna, 5-0, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru með besta móti á Akranesi þegar liðin áttust við, örlítil gola, sólskin og hlýtt í veðri.

Skagamenn höfðu yfirburði í leiknum og komust yfir strax á 16. mínútu þegar Albert Hafsteinsson skoraði eftir sendingu frá Herði Inga Gunnarssyni. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði ÍA aftur. Albert vippaði þá boltanum inn fyrir á Bjarka Stein Bjarkason sem fór framhjá markverðinum og skoraði.

ÍA réði lögum og lofum á vellinum út fyrri hálfleikinn og bættu þríðja markinu við á 43. mínútu. Steinar Þorsteinsson fékk boltann í skyndisókn, fór framhjá varnarmönnum Magna og skoraði með þéttingsföstu skoti í fjærhornið. Staðan í hálfleik 3-0.

Skagamenn slökuðu aðeins á í seinni hálfleik en voru áfram sterkara lið vallarins. Á 72. mínútu átti Steinar skot sem fór í hönd varnarmanns og vítaspyrna var dæmd. Þórður Þorsteinn Þórðarson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Fjórum mínútum síðar innsigluðu Skagamenn síðan 5-0 stórsigur sinn. Steinar átti sendingu inn fyrir vörnina á Albert sem lék á varnarmann og kláraði færið með skoti yfir markvörðinn, sem var lagstur í grasið.

ÍA trónir á toppi deildarinnar með 20 stig eftir átta leiki, tveimur stigum á undan HK í sætinu fyrir neðan. Næsti deildarleikur Skagamanna er Vesturlandsslagur gegn Víkingi í Ólafsvík föstudaginn 29. júní næstkomandi. Í millitíðinni mæta þeir hins vegar úrvalsdeildarliði FH í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Bikarleikurinn fer fram á Akranesi á mánudaginn, 25. júní.

Líkar þetta

Fleiri fréttir