Ljósm. gbh.

Skagakonur töpuðu suður með sjó

Skagakonur máttu játa sig sigraðar fyrir Keflavík, 2-0, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri háfleik, sem einkenndist af mikilli stöðubaráttu inni á vellinum. Skagakonur náðu að skapa sér ágæt tækifæri en tókst ekki að gera sér mat úr þeim. Keflavíkurkonur áttu líka sína spretti í fyrri hálfleik. Þær áttu margar góðar sóknir sem strönduðu þó allar á vörn ÍA. Staðan í hléinu var því markalaus.

Keflavíkurkonur kom ákveðnar til síðari hálfleiks og voru heldur sterkari. Þær komust yfir á 57. mínútu með góðu marki Sveindísar Jane Jónsdóttur. Skagakonur sneru vörn í sókn og reyndu að jafna metin á meðan Keflavík féll aðeins til baka en sótti hratt þegar tækifærið gafst. Ein slík sókn skilaði árangri þegar Natasha Moraa Anasi kom Keflavík í 2-0 á 68. mínútu.

Annað mark Keflavíkur sló Skagakonur aðeins út af laginu. Þær áttu ágætis rispur fram á við það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að minnka muninn. Lyktir leiksins urðu því tveggja marka sigur Keflavíkur.

Eftir leikinn er ÍA í fjórða sæti deildarinnar með níu stig eftir fimm umferðir. Liðið hefur jafn mörg stig og Fylkir í sætinu fyrir ofan, sem þó á leik til góða. Þessi tvö lið mætast einmitt um helgina. Leikur ÍA og Fylkis fer fram í Grafarvogi laugardaginn 23. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira