Styttan Jöklarar, sem staðsett er í sjómannagarðinum á Hellissandi, er orðin ansi illa farin og stendur nú til að steypa hana í brons til að bjarga henni. Ljósm. fengin af vef Snæfellsbæjar.

Jöklarar verða steyptir í brons

Slysavarnardeildin Helga Bárðardóttir í Snæfellsbæ ætlar að láta steypa styttuna Jöklarar, sem staðsett er í Sjómannagarðinum á Hellissandi, í brons. „Þetta er stytta sem slysavarnardeildin lét gera árið 1974 til minningar um fallna sjómenn. Ragnar Kjartansson myndhöggvari gerði styttuna á sínum tíma úr epoxý og átti það efni að vera varanlegt, sem nú hefur komið í ljós að það er ekki,“ segir Albína Helga Gunnarsdóttir, formaður Slysavarnardeildarinnar Helgu Bárðardóttur, í samtali við Skessuhorn. Ragnar kom að Hellissandi og gerði við styttuna fyrir um 10-15 árum síðan en það dugði ekki til og styttan er nú orðin mjög illa farin. „Það eina sem gæti bjargað styttunni er að steypa hana í brons og er staðan nú orðin svo slæm að það er annað hvort að gera þetta núna eða ekki,“ segir Albína og bætir því við að þetta hafi staðið til í 25-30 ár. „Þetta er stytta sem hefur vakið mikla athygli og hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga. Það er okkur því hjartans mál að geta varðveitt hana,“ segir hún.

Að steypa Jöklara í brons kostar skildinginn, en áætlaður kostnaður er um sex og hálf milljón króna. „Við höfum alltaf verið með bankabók þar sem við söfnum pening fyrir Slysavarnardeildina. Nú hefur safnast ágætis upphæð, eða um helmingur af kostnaðinum við þetta verkefni,“ segir Albína. Ekki eru til tæki og tól hér á landi til verksins og verður styttan því flutt til Þýskalands. „Styttan fer út um miðjan ágúst og verður því ekki haggað því það þarf að gera þetta núna til að bjarga henni. Ef við verðum ekki búin að safna fyrir þessu veðsetjum við okkur bara sjálf,“ segir Albína og hlær. „Ég er annars bjartsýn og hef fulla trú á að þetta takist, annars hefði ég aldrei lagt af stað í þetta verkefni.“ Verður það Inga S. Ragnarsdóttir, myndhöggvari og dóttir Ragnars Kjartanssonar, sem mun sjá um verkið.

Þeim sem vilja leggja verkefninu lið er bent á bent á reikning: 0190-15-380046 kennitala: 661090-2009.

Líkar þetta

Fleiri fréttir