Séð yfir Hólmgarð í Stykkishólmi. Ljósm. sá.

Hugmyndir um útisvið og torg í Hólminum

Unnin hefur verið tillaga að útisviði í Hólmgarði í Stykkishólmi til að nota fyrir tónleikahald og við ýmis önnur hátíðarhöld í bænum. Hugmyndin er að byggja nýtt svið og hellulagt svæði sem mun svo mynda torg fyrir miðjum garðinum. Heildarstærð torgsins er áætluð um 360 fermetrar.

Einar Júlíusson, yfirmaður tæknisviðs og skipulags- og byggingarfulltrúi Stykkishólmsbæjar, segir einróm vera um tillöguna en þó hafi ekkert verið ákveðið um framkvæmdir. „Viðbrögðin hafa verið góð og jákvæð. Vonandi verður ný kostnaðaráætlun gerð þegar ný bæjarstjórn tekur við. Enn sem komið er þá er ekki búið að fastsetja neinar framkvæmdir en það er vissulega brýn nauðsyn fyrir svona torgi hér í Stykkishólmi,“ segir Einar í samtali við Skessuhorn.

Í tengslum við tillöguna um útisvið og torg í Hólmgarði eru jafnframt uppi hugmyndir um að setja á ný upp styttuna af Hafmeyjunni, að því er fram kemur á vef Stykkishólmsbæjar. Sú stytta var hluti af gosbrunninum sem áður var í Hólmgarði, eða Kvenfélagsgarðinum eins og hann er einnig nefndur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir